Maxímús Músíkús heimsótti Suðurnesjabæ í vikunni.

Nemendur, Valgerður Guðna og Maxímús
Nemendur, Valgerður Guðna og Maxímús
Tónlistarskólinn í Garði heldur núna upp á fertugasta skólaárið sitt í ár en hann var stofnaður á haustmánuðum árið 1979.  Eitt af afmælisverkefnum skólans var að bjóða elstu leikskólabörnunum og fyrstu bekkingum í Suðurnesjabæ og Vogum upp á sögu og tónlistarstund í samvinnu við listahátíð Ferskra vinda og Maxímús Músíkús.
 
Skólunum var boðið í Tónlistarskólann í Garði þar sem sýningin um Maxímús Músíkús trítlar í tónlistarskólann var flutt.
Sagan var sögð með aðstoð nemenda tónlistarskólans með ýmsum tónverkum og hljóðum sem nemendur og kennarar bjuggu til og mynduðu skemmtilega stemmningu inn í söguna fyrir áheyrendur.  Nemendur tónlistarskólans hafa verið að æfa og vinna að þessari sýningu undanfarnar vikur og afraksturinn var nú fluttur. Sögumaður var Valgerður Guðnadóttir söng og leikkona sem flutti söguna á líflegan og skemmtilegan hátt.
Að sjálfsögðu kom sjálfur Maxímús Músíkús í lok sýningarinnar og dansaði dansinn sinn með krökkunum.
 
Einnig fór Maxímús í leikskóla Suðurnesjabæjar og Voga og fengu leikskólabörnin að heyra söguna um þegar Maxímús heimsækir hljómsveitina.  Mikil kátína og gleði var á meðal leikskólanemenda á þessum stöðum og nú eru börn á Suðurnesjum orðin kunnug Maxímús og tónlistarævintýrum hans.
 
Maxímús Músíkús mun síðan halda áfram að hitta leikskólabörn og grunnskólabörn á Suðurnesjum nú á vormánuðum og fram á haust en þá fer hann í Reykjanesbæ að hitta börnin þar. 
 
Verkefnið er styrkt af Uppbyggingarsjóði Suðurnesja og er það frábært að þessi sjóður stuðli að menningar og tónlistarlegu uppeldi ungu kynslóðarinnar á Suðurnesjum. Minningin lifir lengi hjá þeim sem komu að horfa og ekki síður hjá nemendunum sem tóku þátt í þessari glæsilegu sýningu.